Færsluflokkur: Bloggar

Ísland, best í heimi

Ég elska Ísland og mér fannst frábært að búa þar.  Þegar ég er búinn að afreka það sem ég vil afreka í útlandinu, reikna ég fastlega með að koma heim.

En grein Paul Valley í The Independant er skelfileg froða. Hann fullyrðir hluti út í loftið algjörlega án rökstuðnings og byggt á allskonar fordómum og klysjum. Það er sorglegt að Íslendingar skuli vera svo þyrstir efir athygli að svona illa skrifaðar froðugreinar skuli þykja "fréttir" - og hvernig á maður að túlka það að umfjöllun moggans er svo með öllu athugasemdalaus og ógagnrýnin?  Er blaðamaður moggans svo fáfróður að hann sér ekki rangfærslurnar og bullið, eða heldur hann að hlutlaus blaðamennska þýði að réttast sé að apa upp og endurvarpa hvaða rugl sem er, athugasemdalaust?

Nokkur atriði sem ég rak augun strax í:

Síðast þegar ég vissi stafaði keltneskt blóð Íslendinga af þrælatöku, ekki frá "stuðningsfjölskyldum" Írskra munka. Af hverju í ósköpunum ættu þessar stuðningsfjölskyldur að hafa verið aðallega konur?  Hverskonar munkar heldur hann að Írarnir hafi verið eiginlega? Eða er kannski óhentugt að minnast á víkingaferðir og þrælatöku þegar maður er að reyna að stimpla heila þjóð sem friðsæla?

Hann fullyrðir að áhrif kvenna geri okkur friðsælli.  Þetta eru bara kynjafordómar, þó feministar muni líklega ekki hvarta þar eð hann er að hrósa áhrif kvenna með þessu. Mér finnst sennilegra að smæð þjóðarinnar, almenn velmegun og einangrun okkar frá umheiminum hafi mun meira með friðsældina að gera. Það er erfitt að lenda í stríði þegar maður hefur enga nágranna til að berjast við.

En það sem sýnir mestu fáfræðina og fordóma eru lokaorðin hans "There must be more to cultural life than 13th-century Viking sagas and Björk".  Þetta er bara kjánalegt.


mbl.is Ættu allir að flytja til Íslands?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorglegt

Mér finnst þessi frétt dapurleg.

Hvaðan koma þessi viðhorf?  Af hverju finnst fólki "nýbúar" vera "of margir"?  Er þetta eitthvað annað en rasismi?

Ef á Íslandi væru margir nýbúar atvinnulausir og betlandi, eða á annan hátt til trafala, þá myndi ég skilja svona viðhorf, án þess þó að vera endilega sammála.  En eftir því sem ég best veit er það ekki tilfellið og ég skil ekki hvaðan þetta kemur.

Ég skrifa sem nýbúi á Írlandi, sonur nýbúa á Íslandi, í föstu sambandi við útlending sem vill setjast að á Íslandi.

Á ég að skilja þessa frétt sem svo að 60% íslenskra framhaldsskólanema myndu vilja að móðir mín og kærasta hyrfu héldu sig annarsstaðar? Eða erum við kannski í góðu lagi því við erum með réttan húðlit?


mbl.is 60% nemenda segja nýbúa of marga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyndið - er þetta satt?

Mér finnst fréttin af unglingum að stöðva umferð mjög fyndin.

Ég velti samt fyrir mér hvort það sé virkilega satt að krakkarnir hafi bara verið að fíflast og hafi ekki verið að meina neitt með þessu.  Veit einhver betur?


mbl.is Unglingar stöðvuðu umferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hungursneyð og bílafóður

Ég er yfirleitt meira í því að tuða um það sem mætti betur fara, og er ekki mikill aðdáandi íslenskra stjórnvalda... en rosalega er ég ánægður að sjá Íslendinga nærri þrefalda framlag sitt til matvælaáætlunar SÞ.  Svona á að gera þetta!

Það er búið að vera hálf skelfilegt að lesa undanfarið um hvernig hækkanir á matvælaverði eru að fara með fólk sumsstaðar í heiminum.  Þessi aðstoð er eflaust bara dropi í hafið, en það breytir því ekki að það má forða ansi mörgum frá hungursneyð með 37 milljónum króna.

Mikið rosalega vona ég annars að þessi atburðarás verði til þess að sem flestar vestrænar þjóðir leggji á hilluna öll þessi plön um að breyta korn og annan mannamat í bílafóður. Með nútímatækni er slíkt bara ávísun á hungursneyð, en án þess þó að leysa nein þeirra umhverfisvandræða sem stefnt var að.

Kannski breytist það með tímanum; menn binda vonir við þörungaræktun og nokkrar grastegundir sem þrífast vel þar sem erfitt er að rækta mat.  En að breyta maís, sykurreyr og hrísgrjónaakra í þotueldsneyti og olíu á jepplinga er bara glæpsamlegt.


mbl.is Íslendingar svara kalli um aukna matvælaaðstoð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innanbloggsvísanir

Umræðan hér á blog.is er stærsti kostur vefsins. Það eru nokkrir fítusar sem myndu gera kerfið enn skilvirkara:

  1. Þegar maður gerir athugasemd við blogg einhvers, ætti maður að hafa val um að birta athugasemdina jafnframt sem færslu á eigin bloggsíðu.
  2. Maður ætti að geta séð á stjórnborðinu (eða með síðuviðbót) hvað er að gerast í þeim spjallþráðum sem maður hefur tekið þátt í.

Segið svo að ég gagnrýni mín sé ekki uppbyggileg! ;-)

Ég útskýrði annars fyrir Sæma í athugasemd af hverju ég er ósáttur við hversu lokað þetta kerfi er. Það pirrar mig að geta ekki notað mitt eigið blogg til að taka þátt í þeim samtölum sem hér eiga sér stað. Auðvitað væri mér alveg sama ef ég teldi þetta ekki mikilvægan umræðuvettvang, það gagnrýnir enginn hluti sem skipta engu máli.  Skrifin hjá Sæma eru ástæðan fyrir að ég vildi gjarnan hafa fítus nr. 1 hér að ofan.

Einnig tuðaði ég um eldsneytisverð og mótmæli, hér og hér... og að þurfa að muna hvar ég lagði þessar athugasemdir inn og muna að kíkja aftur seinna til að sjá hver viðbrögðin voru er einmitt ástæða fyrir punkti nr. tvö hér að ofan.


Mótmælagangan mikla

Ó guð, grey maðurinn að labba ALLA LEIÐ frá Kringlunni niðrí bæ!

Þvílík þraut!

Hvernig eru þetta mótmæli?  Ég hef labbað þessa leið margoft, hún er falleg og skemmtileg. Eru bílafíklar landsins virkilega svo firrtir og úr tengslum við fæturnar á sér, að þeir haldi að þeim sé einhver vorkunn að labba í þrjú korter eða svo gegnum sum fallegustu hverfi borgarinnar?

Ef hann hefði ákveðið að labba frá Litlu Kaffistofunni, eða bara frá Rauðavatni, þá hefði þetta kannski verið fréttnæmt.  En frá Kringlunni?  Þetta er bara kómískt.


mbl.is Mótmælaganga Sturlu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Videntifier stöðvar ekki niðurhal

Videntifier hugbúnaðurinn mun ekki stöðva niðurhal.

Hann gæti hinsvegar auðveldað aðilum eins og Youtube að verða við óskum höfundarréttarhafa um að fjarlægja efni sem hefur verið birt í leyfisleysi.  Videntifier er mjög öflugt tæki til að hjálpa réttarhöfum að þekkja eigin verk eftir að þau eru komin í umferð.

Hvorttveggja er í sjálfu sér mjög sniðugt, en þetta er mjög langt frá því að stöðva niðurhal. Þeir sem vilja dreifa kvikmyndum í óþökk höfundanna munu finna leiðir til að fela efnið fyrir svona kerfum og nota nafnleynd og dulritun til að forðast refsingu þó svo að efnið þekkist.  Baráttan um niðurhal er vígbúnaðarkapphlaup þar sem "vondu kallarnir" eru með nánast óendanlegt forskot.

En það er ekki þar með sagt að þetta sé gagnslaust kerfi.  Þetta er mjög sniðugt kerfi.  Úrvinnsla og greinings myndefnis og hreyfimynda er flókið vandamál sem fer að skipta almenning sífellt meiru máli eftir því sem stafrænar kvikmyndir verða algengari á heimilum og Netinu. Öll framþróun á þessu sviði er fagnaðarefni og það er gaman að sjá Íslendinga gera góða hluti þarna.

Sérstaklega þegar maður þekkir þá...

Til hamingju með verðlaunin Krilli!  Þú átt þau örugglega skilin. :-)


mbl.is Hugbúnaður stöðvar niðurhal á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Halló heimur

Þá er ég kominn með blog.is síðu og get tekið þátt í lokuðum bloggheimi MBL.

Aðallega býst ég við að þetta sé gagnlegt til að gera athugasemdir við tilteknar fréttir og taka þátt í umræðu hér; það er ekki séns að ég fari að skrifa lengri pistla á vef sem er ekki undir mínu eigin léni... 


« Fyrri síða

Höfundur

Bjarni Rúnar Einarsson
Bjarni Rúnar Einarsson
Beturviti og netverji.

RSS-straumar

Vefir Bjarna

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband